Ungt fólk í Fjarðabyggð

Ég er frambjóðandi Framsóknar og óháðra í sveitastjórnarkosingunum í ár, sit í 3. sæti og hef brennandi áhuga á málefnum ungs fólks í Fjarðabyggð, skólamálum, forvarnarmálum og íþrótta- og tómstundamálum.

Ungmennaráð var stofnað í Fjarðabyggð  2008 en það voru Æskulýðsslög nr. 70/2007 sem voru hvati sveitarfélaga til stofnunar slíkra ráða en  í 11. gr. laganna segir að sveitarstjórnir skuli hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð til að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu, sem byggist á lýðræði og tækifærum til að koma að ákvörðunum er snerta líf þeirra. Í Hvítbók ESB segir að markmið hennar sé að fá ungt fólk til að vera þátttakendur í ákvarðanatöku innan ESB. Þar er tekið fram að ungt fólk hafi vilja og áhuga til að taka þátt en sækir það þó ekki í hefðbundin pólitísk öfl. Því er nauðsynlegt að búa til vettvang fyrir ungt fólk til að hafa áhrif og eru ungmennaráð m.a. sá vettvangur hér á landi. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er talað um rétt barna til að viðra skoðanir sínar og mikilvægi þess að aðildarríki tryggi börnum rétt og aðstæður til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Að vera með starfandi ungmennaráð er frábært tækifæri til að virkja unga fólkið. Virkja þau til að hafa áhrif í samfélaginu sem þau búa í og vera þátttakendur í ákvarðanatöku er varða sérstaklega mál sem snúa beint að þeim. Það er svo okkar sem sitjum í nefndum og ráðum og embættismanna að að nýta þann möguleika að vísa til þeirra málefnum og fá þau til að taka afstöðu. Þarna tel ég að við verðum að gera mun betur á næstu árum.

Á því kjörtímabili sem nú er líða hefur bæjarstjórn fastsett sameiginlega fundi með Ungmennaráði Fjarðabyggðar og eru þeir nú tveir á ári. Þarna hefur skapast vettvangur fyrir milliliðalausa umræðu um þau mál sem hvíla á unga fólkinu okkar og þeim vísað til viðeigandi nefnda til umfjöllunar og ákvarðana. Um leið hefur þeim gefist kostur á að taka þátt í fundarstörfum bæjarstjórnar á þessum fundum sem ég tel vera líka mjög mikilvægt til að auka áhuga þeirra á sveitarstjórnarmálum. Við bæjarfulltrúar framsóknar höfum verið afar ánægð með þessa þróun og unnið að því að koma henni á en betur má ef duga skal.

Snemma á yfistandandi kjörtímabili stóð Ungmennafélag Íslands fyrir ráðstefnu á Stöðvarfirði þar sem boðið var til þáttöku ungmennaráðum hér fyrir austan og nemendafélögum ME og VA. Á ráðstefnunni kom skýrt í ljós að vilji unga fólksins okkar er að efla félagsmiðstöðvarnar okkar og auka samstarf milli byggðarkjarnanna. Þau vilja efla 2 – 3 miðstöðvar og stækka umfang þeirra og starf. Unga fólkið okkar vill nefnilega hafa meiri samskipti sín á milli, óháð búsetu, hvað sem við fullorðna fólkið segjum og gerum. Við þessum ákveðna vilja ungmennanna verðum við að bregðast. En til þess að svo megi verða, verða almenningssamgöngur á milli kjarnanna að vera í samræmi við opnun félagsmiðstöðvanna, en endurskipulagning samgangna milli þéttbýliskjarnanna er einmitt í endurskoðun hjá Fjarðabyggð með tilkomu Strætisvagna Austurlands.

Það eru sex félagsmiðstöðvar starfræktar í hinni  nýju Fjarðabyggð; PríZund á Breiðdalsvík, Stöðin á Stöðvarfirði, Hellirinn Fáskrúðsfirði, Zveskjan á Reyðarfirði, Knellan á Eskifirði og Atóm í Neskaupstað.

Þessar félagsmiðstöðvar eru margar hverjar í gömlu, þreyttu og óhentugu húsnæði sem þarfnast viðhalds á næstu árum í samræmi við auknar og breyttar kröfur. Áherslur starfsins eru ólíkar því sem var fyrir nokkrum árum síðan og kröfur um t.d. opnunartíma, tæki og tól aðrar. Við getum ekki vikið okkur undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að unga fólkið alist upp við öflugt og gott félagslíf sem fer fram inn í félagsmiðstöðvunum, forvarnarstarfið sem þar er unnið kemur okkur sem samfélagi öllum til góða. Vinnum því með unga fólkinu okkar að því að skapa nýja umgjörð um þetta mikilvæga starf.

Hulda Sigrún Guðmundsdóttir frambjóðandi í 3.sæti á lista framsóknar og óháðra í Fjarðabyggð.

Hvaða afsökun hefur þú?

Við sem búum þetta land erum svo lánsöm að búa við lýðræði, lýðræði sem við ættum að vera þakklát fyrir og stolt af. Í mörgum ríkjum heims eru réttindi fólks fótum troðin og lýðræði virt að vettugi, þess vegna verðum við sem þjóð að virða og nýta rétt okkar t.d. með því að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Þetta á við um kosningar til sveitastjórna rétt eins og kosningar á landsvísu.
Síðast þegar gengið var að kjörborði hér í Fjarðabyggð kusum við um sameiningu Breiðdals og Fjarðabyggðar, þá var kjörsókn 36,2% (1.235 manns) í Fjarðabyggð en 64,5% (85 manns) í Breiðdalshreppi.
Í sveitarstjórnarkosningum árið 2014 var kjörsókn í Fjarðabyggð 65,8% og í kosningunum þar á undan, eða árið 2010 var hún 73,2 %.
En hvers vegna er kjörsókn svona dræm?
Er það vegna þess að sporin að kjörborðinu eru of mörg eða vegna þess að við kærum okkur kollótta hver úrslit kosninga verða? Teljum við okkur trú um að við höfum ekki áhrif eða einfaldlega vegna þess að við nennum ekki að kynna okkur stefnumál framboðanna?
Já, þegar stórt er spurt verður fátt um svör. En við viljum hvetja alla íbúa Fjarðabyggðar til að nýta kosningarétt sinn hvar svo sem þeir setja x-ið sitt, atkvæðið skiptir máli. Verum virk og kynnum okkur stefnumál framboðanna hér í Fjarðabyggð og höfum þannig áhrif á framtíð samfélagsins okkar.
Hildur Vala Þorbergsdóttir
kosningastjóri Framskóknar og óháðra í Fjarðabyggð.