Stefnuskrá 2018

Stefnumál B-lista Framsóknar og óháðra í Fjarðabyggð

Eftir samtal við íbúa hinnar nýju Fjarðabyggðar leggjum við frambjóðendur Framsóknar og óháðra áherslu á eftirfarandi stefnumál í sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí næstkomandi og inn í nýtt kjörtímabil bæjarstjórnar Fjarðabyggðar næstu fjögur árin.

 • B-listinn vill leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar og horfir þar til Fjölskyldustefnu Fjarðabyggðar sem unnin var á liðnu kjörtímabili. Í  þeim efnum viljum við færa stoðþjónustuna, sálfræðinga og aðra ráðgjafa, inn í skólana okkar til að geta hjálpað nemendum fyrr og um leið gert starfsaðstæður kennara og annars starfsfólks betri.  Þá þarf að koma til aukinn stuðningur við langveik og fötluð börn í lengdri viðveru skóla.
 • B-listinn vill í samstarfi við stjórnendur leikskólanna í Fjarðabyggð útfæra sumarlokun leikskólanna aftur til tveggja vikna lokunar eins og áður var í Fjarðabyggð. Með því aukast möguleikar foreldra á breytilegri  sumarfrístöku um leið og börnum er tryggt fjögurra vikna frí frá leikskólanum eins og þau eiga rétt á.
 • B-listinn mun leggja áherslu á lækkun verðs á skólamáltíðunum í skólum Fjarðabyggðar á komandi kjörtímabili.
 • B-listinn telur að með aukinni notkun upplýsingatækni felist ómæld tækifæri í menntunarmálum. Því viljum við ráða sérstakan fagstjóra í upplýsingatæknimálum og í öðrum námsgreinum s.s. íslensku og stærðfræði fyrir skólana í Fjarðabyggð. Með því eflum við samstarf skólanna og faglegan styrk þeirra.
 • B-listinn mun áfram leggja áherslu á að rekstur hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð verði tryggður til framtíðar. Nauðsynlegt er að auka fjármagn frá ríkisvaldinu til þess ásamt því að koma af stað endurbótum við húsnæði Uppsala á Fáskrúðsfirði til samræmis við ný viðmið í aðbúnaði hjúkrunarheimila. Þá þolir uppbygging nýs hjúkrunarheimilis í Neskaupstað enga bið og ólíðandi sá dráttur sem verið hefur á því máli af hálfu ríkisvaldsins.
 • B-listinn vill samþætta forvarnir og jafnréttismál ennfrekar inn í samfélagið í Fjarðabyggð, bæði í skólum sem og í stefnu og starfi sveitarfélagsins. Nauðsynlegt er að auka vægi jafnréttisfræðslu í námi og horfa til samstarfs við íþróttahreyfinguna og félagasamtaka með jafnrétti og forvarnir að leiðarljósi.  Með því verður gott samfélag enn betra.
 • B-listinn vill beita sér með félögum eldri borgara að lausnum á frekari valkostum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í hverfum sveitarfélagsins sem hentað getur eldra fólki.
 • B-listinn telur stofnun Menningarstofu Fjarðabyggðar hafa verið framfaraskref á liðnu kjörtímabili. Engu að síður þurfum við að nýta okkur hana til frekari eflingar menningarstarfs í sveitarfélaginu og stuðnings við öflugt grasrótarstarf.  Frekari uppbygging menningar og afþreyingar er samfélaginu okkar nauðsynleg og leita þarf allra leiða til að efla slíkt. Áframhaldandi stuðningur og samstarf við verkefni eins og Sköpunarmiðstöðina, Menningarmiðstöðina, Þórsmörk og Breiðdalssetur svo fátt eitt sé nefnt er nauðsynlegur.
 • B-listinn telur mikil verðmæti felast í safnastarfsemi sveitarfélagsins. Því viljum við vinna framtíðarsýn fyrir uppbyggingu þeirra og markmið ásamt varðveislu gamalla minja og húsa í sveitarfélaginu. Samspil þessara þátta við ferðaþjónustuna er mikill ásamt því að okkur er skylt að hlú að arfleið hverfa Fjarðabyggðar.
 • B-listinn vill áframhaldandi uppbyggingu á áfangastöðum ferðamanna í Fjarðabyggð með það fyrir augum að stýra umferð um þá og tryggja umgengni við náttúruna. Þá er nauðsynlegt að sveitarfélagið vinni að því að markaðssetja sína innviði til að styrkja ferðaþjónustuna í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni á liðnum árum og frekari uppbygging er á döfinni. Því er nauðsynlegt að halda þétt utan um þau tækifæri og því viljum við nýta það er gistináttaskatturinn kemur til sveitarfélaganna sem tekjustofn og ráða inn ferðamálafulltrúa til sveitarfélagsins til að sinna þessum mikilvæga málaflokki.
 • B-listinn vill eins og áður standa þétt að baki atvinnulífinu í Fjarðabyggð og auka möguleika til aukinnar atvinnuuppbyggingar. Uppbygging á laxeldi er hafin og viljum við vinna með þeim fyrirtækjum að þeim markmiðum. Við leggjum á það áherslu að þjónusta við eldið og vinnsla á afurðum þess verði byggt upp í Fjarðabyggð. Um leið viljum við að þessi uppbygging fari fram í sátt við samfélag og umhverfi þannig að allt okkar atvinnulíf geti starfað saman í sátt og samlyndi.
 • B-listinn vill að dreifbýli Fjarðabyggðar eflist og landbúnaður geti sótt fram til framtíðar. Í þeim efnum viljum við leggja áherslu á ýmsa þætti til þess, áframhald ljósleiðaravæðingu í dreifbýli, fráveitumál, þrýsting á að þriggja fasa rafmagn verði til staðar, sókn á ríkisvaldið gagnvart samgöngumálum og aðra þá þjónustuþætti sem sveitarfélagið á að standa að gagnvart dreifbýlinu til að mannlíf þar geti elfst og blómstrað.
 • B-listinn telur að með stækkun sveitarfélagsins verði að fylgja efling almenningssamgagna innan þess. Í samstarfi við Strætisvagna Austurlands þarf að skipuleggja almenningssamgöngur sem þjónustað geta íbúa nýrrar Fjarðabyggðar með áherslu á Verkmenntaskóla Austurlands, íþrótta- og tómstundir barna og sókn í vinnu og þjónustu á milli hverfa sveitarfélagsins á sem hagkvæmastan hátt.
 • B-listinn telur að ýmsar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins þoli ekki orðið neina bið á komandi kjörtímabili þrátt fyrir að alltaf þurfi að gæta að slíkt rúmist innan fjárhags sveitarfélagsins. Stækkun leikskóla á Reyðarfirði og Eskifirði eru þar í forgrunni og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á Reyðarfirði á þessu ári. Stækkun á Eskifirði þarf að koma strax í kjölfarið. Þá er ljóst að hefja þarf framkvæmdir við einangrun Fjarðabyggðarhallarinnar sem fyrst til að hún geti þjónað hlutverki sínu til framtíðar og um leið aukið notkun hennar.  Þá þarf að halda áfram með viðhald á eignum Fjarðabyggðar og gatnakerfi.
 • B-listinn veit að í höfnum sveitarfélagsins er fjöregg samfélagsins og þar er stöðug þörf fyrir umbætur og þjónustu til að sjávarútvegur geti þrifist og dafnað áfram og komið á móts við aukin umsvif hans. Ljóst er að stækka þarf hafnaraðstöðu á Eskifirði og Fáskrúðsfirði með aukinni uppbyggingu. Hefja þarf framkvæmdir við legukant í Neskaupstað. Stækka þarf höfnina á Stöðvarfirði og hanna hafnarsvæðið á Breiðdalsvík og fara í framkvæmdir í framhaldinu. Þá þarf að halda áfram uppbyggingu Mjóeyrarhafnar á Reyðarfirði og auka viðhald við höfnina í Mjóafirði. Þá erum við svo heppinn í Fjarðabyggð að sjávarútvegur okkar er í sókn og því þurfum við ávallt að vera reiðubúinn að svara þörfum hans og því munu eflaust ný verkefni líta dagsins ljós á komandi kjörtímabili.
 • B-listinn telur að mikið hafi unnist í umhverfismálum sveitarfélagsins á síðustu árum og margt þar til fyrirmyndar og sóma fyrir okkur öll sem byggjum Fjarðabyggð. Engu að síður eru umhverfismál málaflokkur sem alltaf verða næg verkefni í og við þurfum að setja á oddinn á næstu árum fegrun svæða, uppbyggingu leikvalla, göngustíga og hjólreiðastíga, útivistarsvæða og allt það sem gott samfélag þarf til. Þá er fagnaðarefni hversu flokkun sorps hefur aukist og innleiðing brúnu tunnunar hefur skilað sér vel. Á þeirri braut þarf að halda áfram og auka ennfrekar flokkun með það að markmiði að urðun úrgangs heyri sögunni til. Með því verður hægt að lækka sorphirðugjöld í framtíðinni. Þá viljum við að Fjarðabyggð skeri upp herör gegn plasti í náttúrunni og markmiðið er að sem minnst plast verði notað í Fjarðabyggð framtíðar.
 • B-listinn veit að framtíð okkar liggur í æsku Fjarðabyggðar. Því viljum við hlúa að henni sem best og liður í því er að standa vel að forvörnum og umgjörð íþrótta og æskulýðsstarfs. Því þarf sveitarfélagið áfram að styrkja félagasamtök sem standa að slíku starfi og vera þeim til aðstoðar á allan hátt. Við þurfum að auka samstarf við heilbrigðiskerfið um aðgang að sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu í gegnum fjölskyldusvið Fjarðabyggðar. Auka samráð og samtal við Ungmennaráð Fjarðabyggðar til að sjónarmið og áherlsur ungs fólks komi fram í allri vinnu sveitarfélagsins. Þá ætlum við að breyta umgjörð félagsmiðstöðvanna í Fjarðabyggð til móts við óskir notanda þeirra og nýta meðal annars almenningssamgöngur til að efla starfið.

Við, frambjóðendur Framsóknar og óháðra vitum að margt sem sett er fram hér er metnaðarfullt og kostnaðarsamt og fjárhagur sveitarfélagsins ræður ávallt för. Engu að síður er það sannfæring okkar og markmið að  vinna að þessum málum næstu fjögur árin fáum við til þess stuðning.

Sveitarfélagið Fjarðabyggð, með sínum fallegu hverfum og stórkostlegu náttúru, getur átt einstaka framtíð sé rétt á málum haldið.

                                                  Við lofum að vinna að því næstu fjögur árin.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s